mánudagur, 10. mars 2008

Sameinaðar í Suður – Afríku

Það var yndislegt að vera sameinaðar aftur eftir 4 vikna aðskilnað og ekki verra að hafa endurfundina í Suður – Afríku með fullt af góðum vinum. Eyddum fyrstu dögunum á heimili foreldra Maríu í Pretoría, nálægt Jóhannesarborg. Þar sem brúðhjónin eru bæði grískættuð kemur það ekki á óvart að brúðkaupsfagnaðurinn var mikilfenglegur og stóð í 3 daga. Heilt hótel- og dekursvæði var tekið frá fyrir brúðkaupsgestina sem voru alls 250 talsins og svæðið var með spa, golfvelli, sundlaugum ofl ofl. Við erum sem sagt búnar að hafa það alveg hrikalega gott hér í sólinni. En nú skiljast leiðir á ný...Anna Dóra verður í Afríku þar til á miðvikudag og Erla heldur til Svíþjóðar í kvöld. Og þar með lýkur Suður – Ameríku ævintýri stallanna formlega. Þetta er bara búið að vera magnað ævintýri. Takk fyrir að fylgjast með okkur og takk fyrir öll skemmtilegu kommentin sem hafa hlýjað okkur um hjartarætur! Hasta Luego – Erla y Anna Dóra :)

mánudagur, 3. mars 2008

Don’t cry for me Argentina!

Ótrúlegt, en síðasti dagurinn minn í þessari yndislegu heimsálfu er runninn upp. Er núna á flugvellinum í Buenos Aires og býð eftir vélinni til Jóhannesarborgar. Eftir að hafa verið hér í rúma fjóra mánuði, verð ég að segja að Suður-Ameríka er æði! Þetta er yndisleg heimsálfa, með enn yndislegra fólki og eftir alla þessa mánuði hef ég ekki enn hitt manneskju sem er óalmennileg eða óhjálpsöm. Hafði heyrt ýmsar slæmar sögur um heimsálfuna áður en ég fór, en sem betur fer hef ég eingöngu gott um hana að segja. Argentína er þó landið sem mér hefur fundist ég mest ‘heima’ í og ekki skemmir að ég held að hér sé fallegasta fólk í heimi, þ.a. að ganga um göturnar getur verið hin besta skemmtun :) Ég á pottþétt eftir að koma aftur til Suður-Ameríku...hver vill koma með?!!! En núna býð ég spennt eftir að hitta gamla og góða vini í Afríku...hlakka óendanlega til að vera sameinuð stöllunni minni á fimmtudaginn! Setti inn nokkrar myndir frá helginni í Córdoba með vinum mínum hér í Argentínunni. Ást og knúsar til allra!

föstudagur, 29. febrúar 2008

Bariloche

Fór á mánudaginn til San Carlos de Bariloche sem er í suðurhluta Argentínu. Hér búa um 100.000 manns og eru Bariloche búar þekktastir fyrir gott súkkulaði og skíðasvæði. Veit ég hef sagt þetta áður…en hér er alveg ótrúlega fallegt! Andesfjöllin í kringum bæinn og vatn og fullt af trjám, gera þetta að ævintýralegum stað. Og er 22 klst rútuferð (aðra leiðina) algjörlega þess virði að koma hingað í nokkra daga. Fór í smá `trekking`að jökli sem kallast Tronador og gekk einnig um þjóðgarðinn. Notaði svo annan daginn minn til að fara í River Rafting…vá, hvað það var geggjað gaman! Set inn myndir þegar ég kem til Córdoba á morgun, en núna bíður mín aftur 22 klst rútuferð :)
Svo er nú heldur farið að styttast Suður Ameríku ferðalagið, en ferðaplanið mitt núna er þannig að ég verð komin til Córdoba á morgun, fer svo í næturrútu til Buenos Aires á sunnudaginn og flýg svo á mánudaginn til Suður Afríku fyrir brúðkaupið 8.mars. Stoppa svo í Svíþjóð hjá litlu syst í nokkra daga, eða frá 11.-15.mars, og kem loksins á Klakann 15.mars og ætla mér að koma með sólina með mér! Later.

föstudagur, 22. febrúar 2008

Mendoza og Salta

Skellti mér í vikuferðalag hérna í Argentínunni. Byrjaði á því að fara suður til vínræktarhéraðsins Mendoza þar sem ég fór í hjóla- og víntúr. Fór einnig í dagsferð í fjalllendinu Alta Montana. Flaug svo norður á bóginn til borgarinnar Söltu á mánudagskvöldið. Ofboðslega fallegt landsvæði með þvílíkri litadýrð og fór ég í tvær dagsferðir, til Cafayate og Humahuaca og eyddi svo einum degi í fallegu borginni að rölta um. Er núna komin aftur til Córdoba þar sem ég ætla að eyða helginni og fara svo suður á bóginn til Bariloche á mánudaginn. Sædís kemst því miður ekki með mér í ferðalagið, þ.a. ég verð aftur ein á ferð, gistandi á hostelum með fullt af fólki í herbergi – bara spennandi! Langar annars að þakka fyrir öll fallegu ‘kommentin’ ykkar – ekkert smá gaman að fá svona skemmtileg skilaboð :) Hasta luego!

föstudagur, 15. febrúar 2008

Comó andan?

Þá er ég komin aftur til Córdoba og er að klára síðustu vikuna mina í skólanum. Kom hingað á föstudaginn fyrir viku eftir að hafa kvatt stölluna mína í Chile – alveg hrikalega erfitt! Er svo búin að eyða vikunni í skólanum með frábæru starfsfólki og nemendum. Alveg ótrúleg tilviljun, en það byrjaði íslensk stelpa í skólanum á mánudaginn og heitir hún Sædís Alda. Við erum búnar vera voða duglegar í félagslífinu í skólanum; fórum með þeim út að borða (auðvitað kl.22) og í keilu. Já, mér líður eins og ég sé núna unglingur í félagsmiðstöð :) mjög skemmtilegt! Er að fara í smá ferðalag ein, fer í kvöld til Mendoza í næturrútu og svo til borgarinnar ‘Salta’ á mánudaginn og stefni að því að vera komin aftur til Córdoba á föstudag eftir viku. Svo erum við Sædís að velta fyrir okkur að kíkja til Bariloche vikuna eftir það, síðustu vikuna mína í heimsálfunni!!! Knúsukveðja á línuna...

föstudagur, 8. febrúar 2008

Chile

Erum búnar að eyða síðustu dögunum okkar saman í Chile. Mögnuð upplifun að fljúga yfir Andesfjöllin á leiðinni hingað og óneitanlega varð okkur hugsað til myndarinnar ‘Alive’. Notuðum fyrsta daginn til að skoða okkur um í borginni, Santiago de Chile, og fórum svo í frábæra vínsmökkun á vínekrunni ‘Concha y Toro’ daginn eftir. Leigðum bíl í gær og keyrðum til hippabæjarins Valparaíso og strandbæjarins Viña del Mar. Santiago de Chile er með fallegri bæjarstæðum sem við höfum séð, en hún er höfuðborg Chile og er í stærsta dal landsins þar sem hin tignarlegu Andesfjöll umlykja hana (Rio de Janeiro á þó samt ennþá vinninginn sem ‘fallegasta borg ævintýraferðarinnar’). Þar sem leiðir stallnanna eru að skilja þá fórum við í smá nostalgíu og settum inn samantekt af myndum úr þessari sannkölluðu ævintýraferð! Erum strax farnar að telja niður dagana þegar við hittumst aftur í brúðkaupi Maríu og Niko í S-Afríku í byrjun mars! Anna Dóra verður komin í fangið á Tryggva sínum á laugardaginn og byrjar þá nýtt ævintýri fyrir hjónalingana í Englandi! Erla heldur ótrauð áfram Suður-Ameríku ævintýraförinni og verður komin til Córdoba á föstudag, þ.a. fylgist áfram spennt með! Stöllurnar kveðja að sinni og hlakka til næsta sameinaða bloggs í mars :) Ástarkveðjur...

mánudagur, 4. febrúar 2008

Buenos Aires

Yfirgáfum Córdoba á laugardaginn og héldum til Buenos Aires þar sem við eyddum helginni. Buenos Aires er höfuðborg Argentínu og þar búa 13 milljónir, stærsta borgin í ævintýraferðinni. Fórum á frábæra tangósýningu á laugardagskvöldinu, en ekki mátti taka myndir af sjálfri sýningunni en hægt er að skoða myndir á þessari síðu www.senortango.com.ar. Sannfærðumst við um það að tangó er ástríðufullur dans og magnaður á að horfa. Á sunnudeginum röltum við um miðbæinn, sáum fullt af sögulegum stöðum og byggingum, fórum á markaðinn í San Telmo, í bóhemhverfið La Boca þar sem allt iðaði af tangódansi og tónlist. Um kvöldið fórum við út að borða á hafnarsvæðinu, Puerto Madero. Stuttur tími, en við náðum að gera fullt í þessari fallegu tangóborg. Hlökkum til að kynnast næstu borg sem er Santiago de Chile þar sem við ætlum að vera næstu 4 daga, síðustu daga Önnu Dóru í heimsálfunni...