mánudagur, 14. janúar 2008

Lífið í Córdoba

Við stöllurnar erum búnar að vera í skólanum í eina viku. Skólinn er rosa fínn, frábært starfsfólk og góð aðstaða. Við byrjuðum síðan í sjálfboðaliðavinnunni í dag sem við erum mjög spenntar fyrir! Við vinnum á hverfamiðstöð sem stofnuð var af mæðrum í úthverfi Córdoba og er fyrir börn sem búa við bágar félagslegar aðstæður og vannæringu. Vinnan felst annars vegar í því að hjálpa unglingum í hverfinu að undirbúa sig fyrir upptökupróf í ensku (sem verður í febrúar) og hins vegar að hjálpa mæðrum að matbúa hádegismat fyrir vannærð börn í hverfinu. Verður án efa mjög áhugaverð reynsla! Fórum síðan í dagsferð um Córboba héraðið um helgina og höfum hent inn nokkrum myndum frá því. Erum alveg að fíla þessa borg, hér er fullt af fallegum torgum, görðum, byggingum og skemmtilegt að fylgjast með mannlífinu. Verðum hér næstu 3 vikur en þá er stefnan tekin á vikuferð til Chile. Þar sem að sjálfboðaliðavinnunni verður þá lokið og við höfum séð þá staði sem okkur langaði helst að sjá þá hefur hin nýgifta Anna Dóra ákveðið að halda heim á leið til Tryggva síns en Erla heldur ævintýrinu áfram sem lýkur síðan formlega í brúðkaupi Mariu og Nikos í Suður-Afríku þar sem stöllurnar sameinast aftur í byrjun mars. Þar til síðar...