föstudagur, 8. febrúar 2008

Chile

Erum búnar að eyða síðustu dögunum okkar saman í Chile. Mögnuð upplifun að fljúga yfir Andesfjöllin á leiðinni hingað og óneitanlega varð okkur hugsað til myndarinnar ‘Alive’. Notuðum fyrsta daginn til að skoða okkur um í borginni, Santiago de Chile, og fórum svo í frábæra vínsmökkun á vínekrunni ‘Concha y Toro’ daginn eftir. Leigðum bíl í gær og keyrðum til hippabæjarins Valparaíso og strandbæjarins Viña del Mar. Santiago de Chile er með fallegri bæjarstæðum sem við höfum séð, en hún er höfuðborg Chile og er í stærsta dal landsins þar sem hin tignarlegu Andesfjöll umlykja hana (Rio de Janeiro á þó samt ennþá vinninginn sem ‘fallegasta borg ævintýraferðarinnar’). Þar sem leiðir stallnanna eru að skilja þá fórum við í smá nostalgíu og settum inn samantekt af myndum úr þessari sannkölluðu ævintýraferð! Erum strax farnar að telja niður dagana þegar við hittumst aftur í brúðkaupi Maríu og Niko í S-Afríku í byrjun mars! Anna Dóra verður komin í fangið á Tryggva sínum á laugardaginn og byrjar þá nýtt ævintýri fyrir hjónalingana í Englandi! Erla heldur ótrauð áfram Suður-Ameríku ævintýraförinni og verður komin til Córdoba á föstudag, þ.a. fylgist áfram spennt með! Stöllurnar kveðja að sinni og hlakka til næsta sameinaða bloggs í mars :) Ástarkveðjur...