mánudagur, 26. nóvember 2007

Nazca

Um helgina fórum við að skoða hinar frægu Nazca línur en þær eru taldar vera eitt af undrum veraldar (gætu verið nr. 8 ;)....) og af mörgum taldar vera ein stærsta ráðgáta fornleifafræðinnar vegna gerðar, stærðar og fjölda þeirra. En Nazca línurnar eru svokallaðar jarðrúnir (geoglyphs) sem eru dreifðar yfir um 500 km2 svæði í eyðimörkinni í Perú, rétt fyrir utan bæinn Nazca. Jarðrúnirnar mynda hinar ýmsu fígúrur, eins og apa, geimfara, kónguló o.fl. og eru taldar hafa verið gerðar af Nazca fólkinu á tímabilinu ca. 900 f.Kr. – 600 e.Kr. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um gerð þessara fígúra eins og t.d. að þær hafi verið gerðar af geimverum, af trúarlegum ástæðum og jafnvel í tengslum við stjörnurnar en enginn veit með vissu um merkingu þeirra. Ekki er hægt að sjá þær í réttri mynd nema úr lofti og fórum við því í smá flugferð í 6 manna rellu yfir eyðimörkina til að virða þær fyrir okkur. Hægt er að kíkja á nokkrar myndir af þessum furðufyrirbærum í myndasafninu okkar. Jafnframt fórum við að skoða grafreit úr fornöld sem er á sömu slóðum (Cemetery of Chauchilla) og var ótrúleg sjón þar sem brot úr mannabeinum, hárlokkar, leirmunir og klæði voru um víð og dreif um svæðið og einstaka grafhýsi með múmíum sem hægt var að skoða. Núna tekur fjórða og síðasta vikan í rútínulífinu okkar við hérna í Cuzco , vinna og skóli, og svo bíðum við spenntar eftir að sjá Machu Picchu um næstu helgi! Knúsar og kremjur...