Byrjuðum í skólanum síðastliðinn mánudag og okkur líst mjög vel á hann. Allir virðast leggja mikinn metnað í að læra spænskuna og skólinn býður upp á alls kyns skemmtileg námskeið. Við erum ákveðnar í að taka nokkra tíma í salsa, enda veitir ekki af að mýkja frostpinnataktana :) Ákveðið var að við myndum byrja í sjálfboðaliðavinnunni í næstu viku, á leikskóla sem er í úthverfi Cuzco og er fyrir börn sem búa við bágar félagslegar aðstæður. Við erum alltaf að komast betur og betur að því hversu margir hérna búa við bág kjör, um helming búa undir fátæktarmörkum og erfitt hefur reynst að ná tökum á atvinnuleysinu hérna og þurfa því margir að snúa sér að götusölu, skóburstun eða betla til að geta lifað. Maður getur ekki annað en hugsað með þakklæti til þess hversu lífskjör Íslendinga eru góð og maður upplifir sig heldur betur dekraðan í íbúðinni okkar (sem við ætlum að taka fljótlega myndir af) þar sem við erum með allt til alls, internet og sjónvarp o.fl. Sá munaður hefur reyndar komið sér ansi vel undanfarna daga þar sem Anna Dóra hefur mestmegnis legið í rúminu þar sem hún nældi sér í einhverja perúínska flensu en er nú komin á sýklalyf og er á góðum batavegi. Um helgina ætlum við stöllurnar síðan að taka því rólega og skoða okkur betur um hérna í Cuzco, enda svo margt að sjá og gera , og svo bíðum við spenntar eftir að byrja í sjálfboðaliðavinnunni okkar á mánudaginn. Vonum að þið eigið yndislega helgi...
föstudagur, 9. nóvember 2007
Lífið í Cuzco
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)