mánudagur, 7. janúar 2008

Áramótin & Córdoba, Argentína

Áramótin voru í einu orði sagt glæsileg! Vorum algjörar prinsessur þarna í Rio de Janeiro, fórum á stórglæsilegt hlaðborð um kvöldið á hóteli á Flamengo ströndinni. Eftir mat fórum við svo í forsetasvítuna, horfðum svo á flugeldasýninguna á miðnætti og kíktum svo á ströndina á eftir – óvanalegt að byrja nýja árið þannig :) Við erum búnar að henda nokkrum myndum frá áramótunum inn og viljum jafnframt nota tækifærið og biðja þá sem fengu engin áramóta-sms afsökunar og einnig þá sem fengu mörg sms! En símarnir okkar voru í algjöru rugli þetta kvöld og eru því miður enn. . . erum ekki ennþá búnar að fá nothæf argentínsk númer en erum að vinna í því!

En við erum sem sagt komnar til Córdoba í Argentínu. Lentum reyndar í smá uppákomu á leiðinni hingað þar sem við millilentum í Sao Paulo og fengum bara leiðbeiningar á portúgölsku um það hvernig við ættum að haga okkur. Við fórum því í sakleysi okkar að fá okkur e-ð að snæða og að kíkja á slúðurblöðin (sem við höfum ekki séð síðan ævintýrið hófst!). Nema hvað, þegar við fórum að hliðinu okkar þá var ekki mikið um að vera þar, þar sem allir voru mættir í flugvélina og flugvélin byrjuð að leggja af stað. Þannig að uppi var fótur og fit og flugvélin stoppuð fyrir íslensku slúðurdísirnar og okkur var fylgt í flugvélina með einkennisklæddu starfsfólki og stiganum hent út til að koma okkur inn í vélina :) Córdoba er annars alveg glæsileg borg og hérna ætlum við að takast á við næsta rútínulíf. Byrjuðum í skólanum í dag og byrjum í sjálfboðaliðavinnunni í vikunni og erum mjög spenntar fyrir því! Höfum það rosa gott hérna – erum í æðislegri, pínulítilli íbúð með nettenginu og kapalsjónvarpi (er hægt að biðja um meira?) og allir hérna eru eins hjálpsamir og alls staðar annars staðar í þessari heimsálfu! Skrifum aftur fjótlega þegar við vitum meira um hvað sjálfboðaliðastarfið snýst! Knúsar á nýja árinu – stöllurnar.