mánudagur, 26. nóvember 2007

Nazca

Um helgina fórum við að skoða hinar frægu Nazca línur en þær eru taldar vera eitt af undrum veraldar (gætu verið nr. 8 ;)....) og af mörgum taldar vera ein stærsta ráðgáta fornleifafræðinnar vegna gerðar, stærðar og fjölda þeirra. En Nazca línurnar eru svokallaðar jarðrúnir (geoglyphs) sem eru dreifðar yfir um 500 km2 svæði í eyðimörkinni í Perú, rétt fyrir utan bæinn Nazca. Jarðrúnirnar mynda hinar ýmsu fígúrur, eins og apa, geimfara, kónguló o.fl. og eru taldar hafa verið gerðar af Nazca fólkinu á tímabilinu ca. 900 f.Kr. – 600 e.Kr. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um gerð þessara fígúra eins og t.d. að þær hafi verið gerðar af geimverum, af trúarlegum ástæðum og jafnvel í tengslum við stjörnurnar en enginn veit með vissu um merkingu þeirra. Ekki er hægt að sjá þær í réttri mynd nema úr lofti og fórum við því í smá flugferð í 6 manna rellu yfir eyðimörkina til að virða þær fyrir okkur. Hægt er að kíkja á nokkrar myndir af þessum furðufyrirbærum í myndasafninu okkar. Jafnframt fórum við að skoða grafreit úr fornöld sem er á sömu slóðum (Cemetery of Chauchilla) og var ótrúleg sjón þar sem brot úr mannabeinum, hárlokkar, leirmunir og klæði voru um víð og dreif um svæðið og einstaka grafhýsi með múmíum sem hægt var að skoða. Núna tekur fjórða og síðasta vikan í rútínulífinu okkar við hérna í Cuzco , vinna og skóli, og svo bíðum við spenntar eftir að sjá Machu Picchu um næstu helgi! Knúsar og kremjur...

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Ferðapælingar

Ferðalagið síðasta laugardag til El Valle Sagrado (The Sacred Valley) var alveg frábært og erum við alveg dolfallnar yfir snilld Inkanna! Þar sem við erum orðnar svo myndaglaðar með nýju myndavélunum þá skelltum við inn nokkrum nýjum myndum af þessum frábæra stað. Erum búnar að skipuleggja ferðalagið betur og ætlum okkur að fara næstu helgi að skoða Nazca Lines og svo helgina þar á eftir til Machu Picchu. Förum svo frá fallegu Cuzco í byrjun desember og verðum komnar til Bólivíu 8.desember. Þar ætlum við að ferðast í eina viku áður en við höldum til Brasilíu þar sem við hittum Tryggva hennar Önnu Dóru :) Hlökkum ekkert smá mikið til!!! Stefnan er sem sagt tekin á að vera á eyju rétt fyrir utan Rio de Janeiro yfir jólin og njóta jólanna á strönd í sumaryl. Eftir það förum við aftur í rútínulíf í einn mánuð, þ.e. að læra og vinna, í Córdoba í Argentínu. Svo er febrúarmánuður að mestu óákveðinn, en okkur langar til Chile, Uruguay og Paraguay…Já, nóg af ævintýrum sem bíða okkar og okkur finnst við alveg heppnastar í heimi...

laugardagur, 17. nóvember 2007

Rútínan okkar

Byrjuðum á mánudaginn í sjálfboðaliðavinnunni í leikskóla í úthverfi Cuzco. Aðstæðurnar þar eru ansi bágbornar, eins og hægt er að sjá á myndunum sem við vorum að setja inn. Gott dæmi um það er að klósettaðstaða barnanna er garðurinn sem þau leika sér einnig í. Þau eru alls 24 og einn starfsmaður sem heldur utan um starfsemina. Þau eru flest á aldrinum 3-5 ára og eru alveg yndisleg, ekkert smá dugleg og nægjusöm. Þau eru í leikskólanum hálfan daginn, frá kl. 9:00-12:30, sem er okkar vinnutími. Mæðurnar skiptast á að elda hádegismatinn fyrir þau og helsta uppistaðan í matnum eru hrísgrjón. Þarna verðum við næstu tvær vikurnar samhliða spænskunáminu sem er frá kl. 14:00-18:30, þannig að við erum heldur betur komnar í rútínu :) Ætlum að fara í dagsferð um helgina á Inkaslóðir í El Valle Sagrado, hlökkum mikið til. Vonum að þið njótið helgarinnar, knúsar á línuna...

föstudagur, 9. nóvember 2007

Lífið í Cuzco

Byrjuðum í skólanum síðastliðinn mánudag og okkur líst mjög vel á hann. Allir virðast leggja mikinn metnað í að læra spænskuna og skólinn býður upp á alls kyns skemmtileg námskeið. Við erum ákveðnar í að taka nokkra tíma í salsa, enda veitir ekki af að mýkja frostpinnataktana :) Ákveðið var að við myndum byrja í sjálfboðaliðavinnunni í næstu viku, á leikskóla sem er í úthverfi Cuzco og er fyrir börn sem búa við bágar félagslegar aðstæður. Við erum alltaf að komast betur og betur að því hversu margir hérna búa við bág kjör, um helming búa undir fátæktarmörkum og erfitt hefur reynst að ná tökum á atvinnuleysinu hérna og þurfa því margir að snúa sér að götusölu, skóburstun eða betla til að geta lifað. Maður getur ekki annað en hugsað með þakklæti til þess hversu lífskjör Íslendinga eru góð og maður upplifir sig heldur betur dekraðan í íbúðinni okkar (sem við ætlum að taka fljótlega myndir af) þar sem við erum með allt til alls, internet og sjónvarp o.fl. Sá munaður hefur reyndar komið sér ansi vel undanfarna daga þar sem Anna Dóra hefur mestmegnis legið í rúminu þar sem hún nældi sér í einhverja perúínska flensu en er nú komin á sýklalyf og er á góðum batavegi. Um helgina ætlum við stöllurnar síðan að taka því rólega og skoða okkur betur um hérna í Cuzco, enda svo margt að sjá og gera , og svo bíðum við spenntar eftir að byrja í sjálfboðaliðavinnunni okkar á mánudaginn. Vonum að þið eigið yndislega helgi...

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Fyrstu myndir frá Cuzco

Erum búnar að setja inn fyrstu myndirnar frá Cuzco, þær eiga alveg örugglega eftir að verða mun fleiri! Endilega kíkið á myndasíðuna og sjáið fallegu borgina.
Við föttuðum það að við hefðum algjörlega klikkað á því að tala um veðrið í síðustu færslu, eins og sönnum Íslendingum sæmir. En veðrið er búið að koma okkur skemmtilega á óvart :) Hér er yfir 20 stiga hiti á daginn en kólnar þó nokkuð er kvölda tekur.
Hins vegar hafa farsímamálin ekki verið sem skyldi... Íslensku númerin okkar virka ekki hérna og við erum enn að vinna í því að fá perúísk símanúmer. Höfum ekki gefið upp alla von um að það takist.
Hafið það sem allra best :) ást & knúsar

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Perú!

Fórum frá NY til Perú á þriðjudaginn og gistum í Lima eina nótt. Komum svo á miðvikudaginn til Cuzco sem verður okkar heimili næsta mánuðinn. Erum búnar að vera að koma okkur fyrir í íbúðinni á hostelinu, sem okkur list rosalega vel á og hafa allir verið mjög hjálplegir. Erum einnig búnar að skoða okkur um og kíkja í skólann okkar, sem við byrjum í á mánudaginn. Erum mjög hrifnar af þessari borg sem er 3326 m yfir sjávarmáli, sem gerir það að verkum að það tekur smá tíma að venjast loftinu. Í Cuzco búa 320.000 manns og lifir fólkið hérna mest megnis á ferðamönnum, en Cuzco er mjög nálægt Inkaborginni Machu Picchu (sem við ætlum sko að kíkja á!). Á götunum er iðandi mannlíf og víbrandi af lífi, múzík, dansi og litadýrð sem er mjög smitandi fyrir íslenska frostpinna eins og okkur :o) Við upplifum okkur frekar hávaxnar hér þar sem við trónum yfir flestum íbúunum. Einnig erum við að venjast lyktinni í borginni, en henni svipar mikið til viðvarandi sinubruna :o) Ætlum svo að fara með myndavélarnar okkar um helgina og reyna að festa allt á filmu svo þið getið fengið smá innsýn inní þessa fallegu borg og hvað við erum að upplifa. Við skrifum fljótt aftur á síðuna og endilega verið ófeimin að commenta - við elskum það!