laugardagur, 29. desember 2007
Fyrirfram nýárskveðjur frá Rio!!!
mánudagur, 24. desember 2007
Gleðileg jól frá Ilha Grande
mánudagur, 17. desember 2007
Sunny Rio!!!
fimmtudagur, 13. desember 2007
Salar de Uyuni
Fórum í 3ja daga jeppaferð suður eftir Bólivíu þar sem við skoðuðum náttúruperlur landsins. Á fyrsta degi sáum við hið langþráða Salar de Uyuni, eða salteyðimörk sem spannar 12.000 km2 og er sú stærsta í heimi (gæti verið 9 undrið, hehehe). Þetta var áður saltvatnið Lago Minchín, sem þakti mestan hluta af suðvestur Bólivíu, en þegar það þornaði upp þá stóð eftir þessi salteyðimörk sem er alveg rosalega falleg! Komumst þarna í smá jólaskap þar sem hún minnti ansi mikið á snjó. Skoðuðum einnig Isla de los Pescadores (Fiskeyjuna) sem var alþakin risa kaktusum, alveg stórmerkilegt! Gistum þessa nótt á salthóteli, þar sem allt var búið til úr salti, m.a.s. rúmin. Annan daginn skoðuðum við nokkur lón þar sem við sáum fullt af flamengófuglum og fallegum fjallgörðum. Sáum m.a. Laguna Colorada (Litríka lónið) og Montaña Colorada (Litríka fjallið). Síðasta daginn vöknuðum við eldsnemma til að skoða hverasvæði við sólarupprás. Þar náðum við okkar methæð, eða 4950 mys! Enduðum svo ferðina með að sjá Laguna Verde (Græna lónið) og Valle de Rocas (Klettadalinn). Erum komnar aftur til La Paz, sáttar eftir frábæra ferð, og spenntar fyrir að fara til Brasilíu á morgun og að fá Tryggvann til okkar eftir 4 daga, jeiiiiii!!!
sunnudagur, 9. desember 2007
Lake Titicaca og Bólivía
Við yfirgáfum fallegu Cuzco á miðvikudagskvöldið og skelltum okkur til Lake Titicaca sem er hæsta stöðuvatn í heimi (3820 mys) og einnig það stærsta í Suður-Ameríku. Það skiptist milli tveggja landa, Perú og Bólivíu. Fórum í bátsferð til að sjá hinar mögnuðu ‘Uros’ eyjar sem eru fljótandi og eru samtals 42 talsins og eru gerðar úr e-s konar sefgrasi og eyjarbúar þurfa stöðugt að halda þeim við til að þær sökkvi ekki. Á föstudaginn vorum við svo komnar til Bólivíu, til smábæjarins Copacabana. Urðum þar vitni að vikulegri hefð sem okkur fannst soldið skondin þar sem bæjarbúar þrifu bílana og skreyttu þá fyrir utan dómkirkjuna til að þakka fyrir þá. Fórum einnig í bátsferð til eyjunnar Isla del Sol og nutum svo veðurblíðunnar í bænum á laugardaginn áður en við héldum til La Paz, höfuðborgar Bólivíu. Erum sem sagt staddar þar núna en erum enn á faraldsfæti og byrjum í nokkurra daga ævintýraferð í kvöld í rútu og jeppa til Salar de Uyuni sem er stærsta saltpanna heims. Já, alveg nóg að gera að vera ferðalangur :)
þriðjudagur, 4. desember 2007
Machu Picchu
Loksins – loksins sáum við Machu Picchu!!! En við ákváðum að geyma ‘the best for last’ og sjáum ekki eftir því. Fórum um helgina til að sjá þessa mystísku borg og það er ekki hægt að lýsa með orðum hvað þetta var magnað! Machu Picchu (stundum nefnd „Týnda borgin“) er forn borg byggð fyrir komu Kolumbusar til Ameríku af Inkunum. Borgin er 2.430 metra yfir sjávarmáli á fjallsbrún yfir Urubambadalnum í Perú, um 70 km norðvestur af Cuzco. Borgin er ein af alþjóðlegu arfleiðarstöðum UNESCO. Borgin var lengi gleymd umheiminum þó íbúar svæðisins vissu af henni. Fornleifafræðingurinn Hiram Bingham uppgötvaði hana svo 1911 og skrifaði um borgina metsölubók. Við klifruðum upp á fjallið Waynapicchu til að geta virt borgina fyrir okkur úr mikilli hæð. Vonum að myndirnar gefi einhverjar hugmyndir um hvað þetta var áhrifamikil sjón. Erum ennþá að klípa okkur til að kanna hvort þetta hafi verið raunverulegt. Erum núna að njóta síðustu daganna okkar í Cuzco, en við höldum til Bólivíu á miðvikudagskvöldið. Þar til síðar...