laugardagur, 29. desember 2007

Fyrirfram nýárskveðjur frá Rio!!!

Erum búin að hafa það alveg rosalega gott hérna í Rio de Janeiro síðastliðna 2 daga. Því miður er Tryggvi að fara frá okkur á morgun (snökt, snökt...) en við stöllurnar ásamt Suzi ætlum að halda upp á nýja árið hérna. Settum inn nokkrar "jólamyndir" frá Ilha Grande eyjunni, ekki alveg hin týpísku íslensku jól en stemningin var til staðar :) Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar, höfum hugsað til ykkar og saknað...Þökkum fyrir allar yndislegu stundirnar á liðnu ári og hlökkum til allra þeirra frábæru sem bíða okkar á því næsta!!! Kremjuknúsar...

mánudagur, 24. desember 2007

Gleðileg jól frá Ilha Grande

Erum búin að vera á paradísareyjunni Ilha Grande í viku og búin að hafa það rosalega gott. 30 stiga hiti, farið á ströndina á hverjum degi og erfiðasta ákvörðunin er hvað maður eigi að fá sér að borða og hvenær eigi að taka næsta blund! Búið að vera yndislegt að hafa Tryggva hérna hjá okkur, og svo í gær bættist í hópinn ensk vinkona okkar, Suzannah, sem við kynntumst í skólanum í Cuzco og verður með okkur yfir jólin og áramótin. Eyddum aðfangadegi á ströndinni Lopes Mendes og fengum þá jólagjöf á leiðinni þaðan að sjá höfrunga að leik í sjónum...ekki slæmt! Eigum eftir 4 daga hérna á eyjunni og höldum þá aftur til Rio þar sem við munum eyða áramótunum. Setjum inn myndir við fyrsta tækifæri. Okkur langar að óska ykkur öllum, kæra fjölskylda og vinir, gleðilegra jóla og vonum að þið hafið það yndislegt yfir hátíðarnar!

mánudagur, 17. desember 2007

Sunny Rio!!!

Við stöllurnar erum loksins komnar til Brasilíu, til Rio de Janeiro. Komum hingað á föstudaginn og höldum til draumaeyjunnar Ihla Grande á morgun því Tryggvilíus er kominn :) Jei!!! Verðum s.s. á þeirri eyju í 10 daga, eða yfir jólin. Rio kom okkur skemmtilega á óvart. Ofboðslega falleg borg, mjög græn og klettafjöllin marka borgina á ótrúlega magnaðan hátt. Erum búnar að vera í himnaríki hérna þar sem okkur finnst við vera komnar í smá Vestræna menningu, þar sem við höfum fundið skyndibitakeðjur sem við könnumst við, hehe, og erum alveg búnar að vera að njóta þess! Höfum einnig verið að njóta sólarinnar og strandarinnar, en hér er um 30 stiga hiti á daginn. Erum annars komnar með brasilísk símanúmer og getum loksins haft aftur samband við umheiminn, en númerin okkar eru +5521 832 893 92 (Anna Dóra) og +5521 832 888 93 (Erla) ef þörfin grípur ykkur til að senda okkur sms :)

fimmtudagur, 13. desember 2007

Salar de Uyuni

Fórum í 3ja daga jeppaferð suður eftir Bólivíu þar sem við skoðuðum náttúruperlur landsins. Á fyrsta degi sáum við hið langþráða Salar de Uyuni, eða salteyðimörk sem spannar 12.000 km2 og er sú stærsta í heimi (gæti verið 9 undrið, hehehe). Þetta var áður saltvatnið Lago Minchín, sem þakti mestan hluta af suðvestur Bólivíu, en þegar það þornaði upp þá stóð eftir þessi salteyðimörk sem er alveg rosalega falleg! Komumst þarna í smá jólaskap þar sem hún minnti ansi mikið á snjó. Skoðuðum einnig Isla de los Pescadores (Fiskeyjuna) sem var alþakin risa kaktusum, alveg stórmerkilegt! Gistum þessa nótt á salthóteli, þar sem allt var búið til úr salti, m.a.s. rúmin. Annan daginn skoðuðum við nokkur lón þar sem við sáum fullt af flamengófuglum og fallegum fjallgörðum. Sáum m.a. Laguna Colorada (Litríka lónið) og Montaña Colorada (Litríka fjallið). Síðasta daginn vöknuðum við eldsnemma til að skoða hverasvæði við sólarupprás. Þar náðum við okkar methæð, eða 4950 mys! Enduðum svo ferðina með að sjá Laguna Verde (Græna lónið) og Valle de Rocas (Klettadalinn). Erum komnar aftur til La Paz, sáttar eftir frábæra ferð, og spenntar fyrir að fara til Brasilíu á morgun og að fá Tryggvann til okkar eftir 4 daga, jeiiiiii!!!

sunnudagur, 9. desember 2007

Lake Titicaca og Bólivía

Við yfirgáfum fallegu Cuzco á miðvikudagskvöldið og skelltum okkur til Lake Titicaca sem er hæsta stöðuvatn í heimi (3820 mys) og einnig það stærsta í Suður-Ameríku. Það skiptist milli tveggja landa, Perú og Bólivíu. Fórum í bátsferð til að sjá hinar mögnuðu ‘Uros’ eyjar sem eru fljótandi og eru samtals 42 talsins og eru gerðar úr e-s konar sefgrasi og eyjarbúar þurfa stöðugt að halda þeim við til að þær sökkvi ekki. Á föstudaginn vorum við svo komnar til Bólivíu, til smábæjarins Copacabana. Urðum þar vitni að vikulegri hefð sem okkur fannst soldið skondin þar sem bæjarbúar þrifu bílana og skreyttu þá fyrir utan dómkirkjuna til að þakka fyrir þá. Fórum einnig í bátsferð til eyjunnar Isla del Sol og nutum svo veðurblíðunnar í bænum á laugardaginn áður en við héldum til La Paz, höfuðborgar Bólivíu. Erum sem sagt staddar þar núna en erum enn á faraldsfæti og byrjum í nokkurra daga ævintýraferð í kvöld í rútu og jeppa til Salar de Uyuni sem er stærsta saltpanna heims. Já, alveg nóg að gera að vera ferðalangur :)

þriðjudagur, 4. desember 2007

Machu Picchu

Loksins – loksins sáum við Machu Picchu!!! En við ákváðum að geyma ‘the best for last’ og sjáum ekki eftir því. Fórum um helgina til að sjá þessa mystísku borg og það er ekki hægt að lýsa með orðum hvað þetta var magnað! Machu Picchu (stundum nefnd „Týnda borgin“) er forn borg byggð fyrir komu Kolumbusar til Ameríku af Inkunum. Borgin er 2.430 metra yfir sjávarmáli á fjallsbrún yfir Urubambadalnum í Perú, um 70 km norðvestur af Cuzco. Borgin er ein af alþjóðlegu arfleiðarstöðum UNESCO. Borgin var lengi gleymd umheiminum þó íbúar svæðisins vissu af henni. Fornleifafræðingurinn Hiram Bingham uppgötvaði hana svo 1911 og skrifaði um borgina metsölubók. Við klifruðum upp á fjallið Waynapicchu til að geta virt borgina fyrir okkur úr mikilli hæð. Vonum að myndirnar gefi einhverjar hugmyndir um hvað þetta var áhrifamikil sjón. Erum ennþá að klípa okkur til að kanna hvort þetta hafi verið raunverulegt. Erum núna að njóta síðustu daganna okkar í Cuzco, en við höldum til Bólivíu á miðvikudagskvöldið. Þar til síðar...