mánudagur, 10. mars 2008

Sameinaðar í Suður – Afríku

Það var yndislegt að vera sameinaðar aftur eftir 4 vikna aðskilnað og ekki verra að hafa endurfundina í Suður – Afríku með fullt af góðum vinum. Eyddum fyrstu dögunum á heimili foreldra Maríu í Pretoría, nálægt Jóhannesarborg. Þar sem brúðhjónin eru bæði grískættuð kemur það ekki á óvart að brúðkaupsfagnaðurinn var mikilfenglegur og stóð í 3 daga. Heilt hótel- og dekursvæði var tekið frá fyrir brúðkaupsgestina sem voru alls 250 talsins og svæðið var með spa, golfvelli, sundlaugum ofl ofl. Við erum sem sagt búnar að hafa það alveg hrikalega gott hér í sólinni. En nú skiljast leiðir á ný...Anna Dóra verður í Afríku þar til á miðvikudag og Erla heldur til Svíþjóðar í kvöld. Og þar með lýkur Suður – Ameríku ævintýri stallanna formlega. Þetta er bara búið að vera magnað ævintýri. Takk fyrir að fylgjast með okkur og takk fyrir öll skemmtilegu kommentin sem hafa hlýjað okkur um hjartarætur! Hasta Luego – Erla y Anna Dóra :)

mánudagur, 3. mars 2008

Don’t cry for me Argentina!

Ótrúlegt, en síðasti dagurinn minn í þessari yndislegu heimsálfu er runninn upp. Er núna á flugvellinum í Buenos Aires og býð eftir vélinni til Jóhannesarborgar. Eftir að hafa verið hér í rúma fjóra mánuði, verð ég að segja að Suður-Ameríka er æði! Þetta er yndisleg heimsálfa, með enn yndislegra fólki og eftir alla þessa mánuði hef ég ekki enn hitt manneskju sem er óalmennileg eða óhjálpsöm. Hafði heyrt ýmsar slæmar sögur um heimsálfuna áður en ég fór, en sem betur fer hef ég eingöngu gott um hana að segja. Argentína er þó landið sem mér hefur fundist ég mest ‘heima’ í og ekki skemmir að ég held að hér sé fallegasta fólk í heimi, þ.a. að ganga um göturnar getur verið hin besta skemmtun :) Ég á pottþétt eftir að koma aftur til Suður-Ameríku...hver vill koma með?!!! En núna býð ég spennt eftir að hitta gamla og góða vini í Afríku...hlakka óendanlega til að vera sameinuð stöllunni minni á fimmtudaginn! Setti inn nokkrar myndir frá helginni í Córdoba með vinum mínum hér í Argentínunni. Ást og knúsar til allra!